*

föstudagur, 28. janúar 2022
Erlent 8. ágúst 2017 11:13

2.000 nýir McDonald's staðir í Kína

McDonald's hyggst opna 2.000 nýja staði í Kína á næstu fimm árum. Gert er ráð fyrir að kínverski markaðurinn verði næst stærstur á eftir Bandaríkjamarkaði.

Pétur Gunnarsson
epa

McDonald's mun opna 2.000 nýja skyndibitastaði í Kína á næstu fimm árum. Kínamarkaður verður því brátt næst stærsti markaður keðjunnar utan Bandaríkjanna að sögn Steve Easterbrook, forstjóra McDonald's. Um málið er fjallað í frétt CNN Money. Alls verða því 4.500 McDonald's veitingastaðir í þessu fjölmennasta ríki heims. McDonald's sem hefur löngum verið nokkurs konar tákn bandarísks kapítalisma, virðist heldur betur vera að ryðja sér til rúms í kommúnistaríkinu Kína.

McDonald's ásamt tveimur nýjum samstarfsaðilum sínum í Kína - fjárfestingafélögin Citic og Carlyle Group - vonast til þess að stórauka sölu sína í Kína á næstu fimm árum. Sérstaklega er gefið minni kínverskum borgum gaum í þessari nýju herferð félagsins. McDonald's seldi stóran hluta af starfsemi félagsins í Kína til Citic og Carlyle, og vonaðist félagið til þess að þessi fjárfestingarfélög gætu bætt við staðbundna þekkingu McDonald's í Kína. McDonald's á enn 20% hlut í starfseminni í Kína.

Viðskiptablaðið hefur áður sagt frá félögunum Citic og Carlyle Group, en Citic er í eigu kínverska ríkisins - Carlyle Group er aftur á móti einkahlutafélag. Félögin tvö keyptu ráðandi hlut í starfsemi McDonald's í Kína á ríflega 2 milljarða Bandaríkjadala snemma á þessu ári. Samningurinn gaf Citic og Carlyle Group einkaleyfisrétt til 20 ára, en Citic á nú 52% hlut í McDonald's í Kína, Carlyle, 28% og McDonald's 20%.

Hagnaðurinn eykst

Skyndibitarisinn hagnaðist um 1,4 milljarða Bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi þessa árs og jókst hagnaður félagsins um ríflega 28% frá sama tímabili í fyrra. Þrátt fyrir betri afkomu drógust tekjur félagsins saman um 220 milljónir Bandaríkjadala samanborið við árið í fyrra en voru þrátt fyrir það hærri en greiningaraðilar áttu von á. 

Hagnaður á hlut nam 1,7 Bandaríkjadölum en greiningaraðilar höfðu spáð því að hagnaður á hlut hjá félaginu yrði 1,62 Bandaríkjadalir. Gengi hlutabréfa McDonald's hefur hækkað um 27,32% frá byrjun árs og um 0,75% það sem af er degi. 

Stikkorð: Kína McDonald's Kína opna staðir