„Framkvæmdir ganga ágætlega og við reiknum með að húsið verði tekið í notkun í byrjun næsta árs,“ segir Ingi Björnsson, verkefnisstjóri hjá Samherja um nýju landvinnsluna sem er að rísa á Dalvík.

„Húsið verður tilbúið 5-6 mánuðum seinna en upphaflega var ráðgert. Talsverðar breytingar voru gerðar á hönnun auk þess sem ákvörðun var tekin um að leggja ekki áherslu á það að taka húsið í notkun í haust. Það þótti hagkvæmara vegna markaða og ytri aðstæðna að taka húsið ekki í notkun fyrr en eftir áramót,“  segir Ingi.

„Það verður eitthvert hlé í vinnslunni þegar flutt er úr gamla húsinu í það nýja. Þess vegna er talið heppilegra að flytja starfsemina eftir áramót frekar en að haustlagi. Með því móti er vissri tímapressu létt af við byggingu hússins. Tækjaframleiðendur eru að fara með sína framleiðslu inn í húsið þessa dagana. Kælismiðjan Frost er til að mynda komin inn með sinn búnað og einnig er verið að setja upp lausfrysta. Í næsta mánuði hefst uppsetning á tækjum frá Völku, þ.e.a.s. vatnsskurðarvélum og öðrum vinnslubúnaði. Planið er því að húsið sjálft verði tilbúið fyrir áramót og vinnslukerfin verði komin í gagnið fljótlega á nýju ári,“ segir Ingi.

Allt á einu gólfi

Hann segir verkið á áætlun hvað kostnað varðar. Mikill hugur sé í mönnum og það verði mikil breyting að fara úr gamla húsinu í það nýja. Vinnslan verði öll á einu gólfi í nýja húsinu og búin nýjustu vinnslutækni.

Haft var eftir Gesti Geirssyni, yfirmanni landvinnslu Samherja, í Fiskifréttum í byrjun september 2017, að stefnt verði að því að vinna hundrað tonn á dag í húsinu, sem þýðir að afköstin verða um 20 þúsund tonn á ári. Til þessa hefur afkastagetan verið um 15 þúsund tonn, en á Dalvík hefur um helmingur landvinnslu Samherja verið á bolfiski. Hinn helmingurinn hefur verið unninn á Akureyri.

„Gamla húsið okkar er að stofni til sláturhús á Dalvík, 50 til 60 ára gamalt sem búið er að prjóna við, og það hús er bara barn síns tíma. Við erum búnir að fullnýta það og rúmlega það,“ sagði Gestur.

Fréttin birtist fyrst í Fiskifréttum 19. september