Það er óhætt að segja að íslenska krónan hafi farið nokkra rússíbana ferð á árinu sem nú er að líða en sé miðað við opinbert gengi Seðlabanka Íslands lækkaði gengi krónunnar um 43,9%.

Opinber gengisvísitala var í upphafi árs 121,4 stig en er í dag 216,3 stig.

Á myndinni hér til hliðar má sjá þróun gengisvísitölunnar á árinu miðað opinbert gengi Seðlabankans þar sem sveiflur ársins sjást skilmerkilega.

Um miðjan mars hóf gengi krónunnar að veikjast nokkuð en þann 18. mars var gengi hennar komið í tæp 158 stig og eftir það lá leið hennar niður á við. Þá rokkaði gengi hennar nokkuð um vorið en náði nýju lágmarki síðustu vikuna í júní þegar gengi hennar var orðið tæp 170 stig.

Það var síðan á haustmánuðum sem gengi krónunnar tók flug niður á við á ný en þann 1. október fór gengisvísitalan í fyrsta sinn yfir 200 stig. Nokkrum dögum síðar hrundi bankakerfið hér í landi og gengi krónunnar varð svo að segja marklaust.

Í raun myndaðist tvöfaldur markaður með gjaldeyri eins og Greining Glitnis orðaði það greiningu sinni um gjaldeyrismarkaði. Þannig var Seðlabanki Íslands með eitt gengi en allt annað gengi var á millibankamörkuðum í Evrópu ,en þó í litlum viðskiptum, en evran kostaði um tíma tæpar 300 krónur á millibankamörkuðum.

Seðlabankinn ákvað aðra vikuna í október að festa gengi krónunnar og átti viðskipti með evruna í 131 krónu. Þann 10. október tilkynnti Seðlabankinn jafnframt um temprun útflæðis á gjaldeyri.

Um mánaðarmótin nóvember/desember var gengi krónunnar sett á flot á ný en þó með takmörkunum en þann 1. Desember náði opinbert gengi algjöru hámarki eða 250,7 stigum.

Í kjölfar þess að krónan var sett á flot á ný styrktist krónan um tæp 30% á nokkrum en hefur út desember mánuð veikst aftur um tæp 10%.

Samkvæmt vef Seðlabankans stendur Bandaríkjadalur nú í lok árs í 120,9 krónum, Evran í 175,4 krónum og Sterlingspundið í 170 krónum.

Þá stendur svissneskur franki í 113,9 krónum, japanskt jen í 1,3 krónum og danska krónan í 22,8 krónum.