Langtímalán Reykjavíkurborgar (A-hluta og samstæðu) námu 201 milljarði króna í lok september. Til viðbótar námu leiguskuldir tæpum 11,8 milljörðum. Þetta kemur fram í minnsblaði frá fjármálastjóra borgarinnar, sem lagt var fram á síðasta fundi borgarráðs. Tilefni minnisblaðsins var fyrirspurn frá borgarfulltrúa Pírata.

Fram kemur að stærsta skuldin sé við Evrópska fjárfestingarbankann (EIB) eða 36 milljarðar. Þá skuldar borgin Íbúðalánasjóði tæplega 26,9 milljarða. Athyglisvert er að skoða langtímaskuldir Reykjavíkurborgar við íslensku bankana. Borgin skuldar Landsbankanum 20,3 milljarða króna, Íslandsbanka tæplega 580 milljónir og Arion banka 77. Reykjavíkurborg skuldar Þróunarbanka Evrópuráðsins (CEB) samtals 17,1 milljarð króna og Depfa ACS bankanum 16,2 milljarða.