Forsvarsmenn Chrysler í Bandaríkjunum eru borubrattir þessa dagana eftir hremmingar og uppstokkun á undanförnum misserum. Á næstu vikum kemur á markað 2010 módelið af Dodge Ram skúffubílnum sem kallaður er 2010 Dodge Ram Heavy pickup. Er um nýtt útlit að ræða en sömu öflugu vélar og áður. Talsmaður Crysler segir hróðugur á vefsíðu The Detroit News að auglýsingaherferðin á bílnum sé vel fjármögnuð.

Tvær gerðir verða í boði af 2010 módelinu af Dodge Ram Heavy pickup, þ.e. 2500 og 3500 gerðirnar. Bíllinn er mun svipmeiri en 2009 módelið. Það er einkum hátt húddið og stórt grill sem vekja fyrst athygli, en innréttingin hefur einnig verið endurbætt. Í boði verða tvær vélar, þ.e. 5,7 lítra Hemi V-8 og Cummins 6,7 lítra V-8 dísil vél. Eru þetta að grunni til sömu vélar og áður, en með nokkrum endurbótum.

Ekki er að sjá að efnahagskreppa og hátt orkuverð sé neitt að plaga hönnuði og stjórnendur Chrysler, því seint verða þessir bílar taldir sérlega sparneytnir. Forsvarsmenn Chrysler veðja þarna á að Bandaríkjamenn séu enn hrifnir af stórum og stæðilegum skúffubílum, enda hefur markaðshlutdeild Chrysler með Dodge Ram aukist um 1% á þessu ári.

Bruce Belzowski, sem tekið hefur þátt í markaðskönnun Michigan háskóla, er þó ekki eins bjartsýnn. „Skúffubílarnir (Pickups) eru ekki að fara neitt. Þeir munu áfram verða umtalsverðir þátttakendur á markaðnum, enda margir sem þurfa á slíkum bílum að halda. En það verður þó ekki þörf fyrir sama fjölda af slíkum bílum og áður var.”

Íslendingar hafa líka verið mjög hrifnir af stórum skúffubílum. Miðað við lækkandi gengi dollars að undanförnu, sem stendur nú í 123 krónum, mætti ætlaða að þeir Íslendingar sem á annað borð hafa áhuga á nýjum stórum bílum líti nú vonaraugum til Bandaríkjanna varðandi bílakaup.