Hagnaður skráðra félaga í Kauphöll Íslands dróst saman þriðja árið í röð. Hagnaður félaganna 18 á aðallista Kauphallarinnar nam 44 milljörðum króna. Samanlagður hagnaður Kauphallarfélaganna lækkar um 36% á milli ára og hefur lækkað um 61% frá 2015 þegar hagnaðurinn nam 112 milljörðum króna. Munar þar hvað mestu um samdrátt í hagnaði  Arion  banka sem lækkað hefur úr 50 milljörðum árið 2015 í tæplega 8 milljarða króna í fyrra.

Aukinn kostnaður „Árið 2018 mun samt ekki fara í sögubækurnar sem sérstaklega gott ár fyrir afkomu fyrirtækja í Kauphöllinni enda að kljást við hærri launakostnað, hækkun fasteignagjalda og óreglulega liði sem virkuðu frekar til þess að minnka hagnaðinn,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. Hagnaður þrettán félaga af átján dróst saman á milli ára. Nokkuð ólíkar ástæður eru í tilfelli hvers félags fyrir sig hvers vegna afkoma félaganna breyttist milli ára.

Þá bendir Stefán Broddi á að hagnaður geti gefið skakka mynd af því hvernig grunnrekstur fyrirtækjanna stendur. „Bókfærður hagnaður segir oft aðeins hálfa sögu um undirliggjandi afkomu félaga þar sem óreglulegir liðir geta ýkt afkomuna í hvora áttina sem er,“ segir hann.

„Stærsta breytingin á sér stað hjá  Icelandair  enda miklir erfiðleikar í flugrekstri eins og þekkt er. Hagnaður Símans nær þurrkast út milli ára vegna afskriftar á viðskiptavild. Þá minnkar hagnaður fasteignafélaganna fyrst og fremst vegna matsbreytinga. Í tilviki tryggingafélaganna endurspeglast lág ávöxtun á eignamörkuðum í afkomu af fjárfestingum auk þess sem árið 2018 var nokkuð þungt hvað tjón varðar,“ segir Stefán Broddi.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .