*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 14. febrúar 2021 14:05

2020 enn verra en margir telja

Forstjóri Deloitte bendir á að fleiri neikvæðir utanaðkomandi þættir hafi herjað á fyrirtæki á alþjóðavísu í fyrra en COVID-19.

Sveinn Ólafur Melsted
Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri Deloitte á Íslandi.
Eyþór Árnason

Þorsteinn Pétur Guðjonsson, forstjóri Deloitte á Íslandi, er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðisins þar sem hann segir frá nýrri alþjóðlegri skýrslu Deloitte um þrautseig fyrirtæki. Hann bendir á að þegar horft sé til baka til ársins 2020 megi færa rök fyrir því að árið hafi á margan hátt verið enn verra en margir gera sér grein fyrir.

„Það komu saman fjórir þættir sem allir höfðu samverkandi neikvæð áhrif. Þó að COVID-19 standi upp úr hjá flestum þá kom það í kjölfarið á vaxandi óróleika samfélagslega og í stjórnmálum, víðar en bara á Vesturlöndum, til viðbótar við alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga. Þetta þýðir að fyrirtæki hafa staðið frammi fyrir virkilega erfiðum verkefnum sem hefur neytt þau út í stefnubreytingar og að framkvæma hlutina á nýjan hátt. Þau fyrirtæki sem gera ráð fyrir slíkum ósköpum og eru undirbúin eru augljóslega í betri stöðu til að þrífast en hin sem gera það ekki." 

Norðurlöndin eftirbátar í aðlögunarhæfni og tækni

Að sögn Þorsteins virðast stjórnendur á Norðurlöndunum almennt bjartsýnni en aðrir á að svipuð áföll og COVID-19 muni ekki endurtaka sig á næstunni. 

„Það er ánægjulegt að sjá norræna stjórnendur á pari við alþjóðlega kollega þegar kemur að uppbyggingu trausts og þeir standa sig jafnvel betur þegar kemur að trausti milli stjórnenda og starfsfólks. Einkum þegar kemur að því að styðja við geðheilbrigði starfsfólks." 

Norðurlöndin komi heilt yfir vel út en einn þáttur valdi vissum vonbrigðum. „Það gæti komið mörgum á óvart að Norðurlöndin virðast vera aðeins á eftir umheiminum í aðgerðum er snúa að aðlögunarhæfni og tækni. Almennt séð höfum við alltaf trúað því að Norðurlöndin séu framarlega í þessum málum, sérstaklega þegar kemur að aðlögunarhæfninni, en sú virtist ekki vera raunin. Þegar kemur að því að bjóða starfsfólki að vinna heiman frá, nýta tæknina og vera með fjölbreyttan mannauð þá virðast Norðurlöndin standa verr að vígi en kollegar víða um heim.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér