Hagnaður Bakarameistarans ehf., sem rekur samnefnda sætabrauðsgerð og kaffihúsakeðju á níu stöðum á höfuðborgarsvæðinu, dróst saman á liðnu ári og nam eftir skatta 22 milljónum króna.

Er það rétt rúmlega þriðjungur af afkomu ársins 2019. Tekjur námu 1.072 milljónum króna og drógust saman um 110 milljónir milli ára. Í skýrslu stjórnar segir að þau áhrif megi rekja til farsóttarinnar en þrátt fyrir að verslanir félagsins hafi fengið að hafa opið þá hafi tekjur af veisluþjónustu skroppið saman.

Rekstrargjöld námu rétt rúmum milljarði og drógust saman um 60 milljónir milli ára. EBITDA var 67,5 milljónir sem er tæplega helmingi minna en 2019. Eignir félagsins námu 426 milljónum, eigið fé var 256 milljónir og skuldir 170 milljónir.

Á árinu keypti félagið fasteign og hækkaði bókfært verð fasteigna af þeim sökum um rúmlega 60 milljónir. 40 milljónir bættust við á skuldahliðina þar sem enn á eftir að greiða allt kaupverðið. Samkvæmt skýrslu stjórnar er búist við betri afkomu í ár en í fyrra.