Samkvæmt nýrri farþegaspá Isavia munu 24 flugfélög fljúga með 7,8 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll á næsta ári. Raungerist það, þá verður árið 2023 það þriðja stærsta í sögu flugvallarins.

Farþegaspáin gerir ráð fyrir að farþegar verði hálfri milljón fleiri en árið 2019. Hlutfall tengifarþega verði 27% sem er svipað og 2019 en nokkru minna en árið 2018 þegar hlutfall þeirra var tæp 40%.

Áætlað er að 24 flugfélög verði með áætlunarflug til og frá 80 áfangastöðum í Evrópu og Norður-Ameríku, þar af 51 allt árið.

Farþegaspáin gerir ráð fyrir að tæpar 2,2 milljónir erlends ferðafólks muni koma til Íslands um Keflavíkurflugvöll á árinu 2023. „Aðeins einu sinni áður hefur fleira ferðafólk komið til Íslands um Keflavíkurflugvöll á einu ári og voru það 2,3 milljónir metárið 2018.“

Farþegaspá er unnin út frá upplýsingum um afgreiðslutíma sem flugfélög hafa tryggt sér og byggir á upplýsingum úr kerfum Isavia til viðbótar við fréttir af áformum flugfélaga.

„Alþjóðasamtök flugvalla í Evrópu hafa gefið það út að 10% aukning í beinum flugtengingum skili um 0,5% hagvexti í viðkomandi landi og líklega eru áhrifin á Íslandi enn meiri þar sem við erum eyland,“ er haft eftir Sveinbirni Indriðasyni, forstjóra Isavia.

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, sagði hraða endurheimt farþega á árinu og farþegaspána staðfesta að ferðaþjónustan hafi náð fyrri styrk og það hvetji Isavia til að halda áfram að þróa Keflavíkurflugvöll.

„Við höfum þegar stigið mikilvægt skref með framkvæmdum við svokallaða Austurálmu sem mun opna í áföngum frá seinni hluta næsta árs og fram að lokum 2024. Með henni bætum við alla þjónustuupplifun á flugvellinum, fyrst í lok næsta árs með nýjum og miklu rúmbetri farangursmóttökusal,“ sagði Guðmundur Daði.