Fjárfestingarstig ríkisins verður aukið samkvæmt fjármálaáætlun árin 2019 til 2021 í 1,5% af vergri landsframleiðslu en því verður haldið í 1,3% árin 2017 til 2018.

Er það gert því að á þessum árum er búist við að atvinnuvega- og íbúðafjárfesting verði mikil en aukningin er ákveðin á síðara hluta tímabilsins því þá muni draga úr öðrum fjárfestingum í hagkerfinu.

Þetta svokallaða fjárfestingarsvigrúm kemur til viðbótar við svokallað útgjaldasvigrúm sem Viðskiptablaðið hefur fjallað um áður.

Ný verkefni koma í stað þeirra sem klárast

Er með þessu fyrirkomulagi gert ráð fyrir að fjárfestingarsvigrúm myndist þannig í bæði í takt við hagvöxtinn og þegar verkefni koma í stað annarra verkefna sem klárist að því er fram kemur í kynningu fjármálaráðuneytisins á fjárlagafrumvarpi ársins 2017.

Uppsafnað fjárfestingarsvigrúm tímabilsins verður því nálægt 22 milljörðum króna árið 2021 en árið 2017 áætlað að það verði 6,4 milljarðar króna.

25-28 milljarðar í árlegar grunnfjárfestingar

Heildarumfang framkvæmda sem fjármagnað er með svigrúminu getur því orðið 75 milljarðar króna árin 2017 til 2021, sem kemur til viðbótar þeim 25-28 milljörðum króna sem fara í árlegar grunnfjárfestingar.

Geta því fjárfestingarnar orðið á bilinu 38-48 milljarðar króna á ári sem þýðir 205 milljarða króna uppsafnað fyrir allt tímabilið.