207 frumkvöðlateymi sóttu um þátttöku í nýsköpunarsmiðjunni Startup Reykjavík. Umsóknarfrestur rann út á miðnætti en að baki umsóknunum sem bárust standa 309 einstaklingar.

Startup Reykjavík er nýsköpunarsmiðja sem Arion banki, Innovit og Klak standa að baki. Vinnan fer fram í sumar þegar tíu teymi fá tækifæri til að þróa hugmyndir sínar áfram. Tilkynnt verður hvaða tíu hópar fá tækifærið fyrir 1. maí næstkomandi.

Þeir sem valdir verða til þátttöku fá 2 milljóna króna hlutafé frá Arion banka gegn 6% hlutdeild í fyrirtækinu. Þá tekur við 10 vikna þjálfun með aðstoð frá ráðgjöfum víða úr atvinnulífinu og fleira.