*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 25. september 2015 14:02

207 milljarða kísilverksmiðjur

Á næstu þremur árum munu fjórar kísilverksmiðjur rísa hér á landi og samanlagt munu þær skapa tæplega 800 störf.

Trausti Hafliðason
Teikning af fyrirhugaðri kísilverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík.

Samtals munu tæplega 1.500 manns vinna við byggingu kísilverksmiðjanna fjögurra. Það er svipaður fjöldi og starfaði við Kárahnjúkavirkjun þegar þær framkvæmdir stóðu sem hæst. Öll fyrirtækin hafa gert ívilnunarsamninga við stjórnvöld en orkusamningar eru mislangt komnir. Samanlögð raforkuþörf verksmiðjanna er 259 megavött (Mw). Til samanburðar þá er uppsett afl Búðarhálsvirkjunar, nýjustu virkjunar Landsvirkjunar, 90 Mw. Uppsett afl Búðarhálsvirkjunar er 270 Mw og Káranhjúkavirkjunar 690 Mw.

Silicor Materials

Langstærsta einstaka verkefnið er sólarkísilverksmiðja Silicor Materials á Grundartanga. Kostnaðurinn við byggingu verksmiðjunnar nemur 120 milljörðum króna. Að sögn Davíðs Stefánssonar er stefnt að því að hefja framkvæmdir næsta vor og að verksmiðjan hefjir starfsemi árið 2018. Raforkuþörf verksmiðjunnar er 85 Mw. Silicor Materials skrifuðu í síðustu viku undir samning við Orku náttúrunnar (ON) um kaup á 40 Mw af raforku. Eftir standa 45 Mw og segir Davíð að Silicor vonist til að semja við Landsvirkjun um þá orku. Búið sé að setja upp skilmálasamning.

PCC á Bakka

Framkvæmdir við 33 þúsund tonna kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík hófust í síðustu viku. Stefnt er að því að gangsetja verksmiðjuna árið 2017. Forsvarsmenn PCC sömdu við Landvirkjun um raforku en verksmiðjan mun þurfa 52 Mw. Í byrjun sumars var öllum fyrirvörum við samninginn aflétt og þar með er PCC skuldbundið til að kaupa raforkuna. Orkan mun koma frá Þeystareykjavirkjun. Í framtíðinni er gert ráð fyrir að stækka verksmiðjuna í 66 þúsund tonn. Fullbyggð mun hún því þurfa 104 Mw.

United Silicon

Það verkefni sem lengst er komið er kísilmálmverksmiðja United Silicon í Helguvík á Reykjanesi. Framkvæmdir við byggingu hennar hófust fyrir nokkru síðan og er gert ráð fyrir að verksmiðjan verði tilbúin í maí á næsta ári.  Magnús Garðarsson, einn eigenda United Silicon, segir að framkvæmdir gangi ágætlega.

Í fyrsta áfanga verða framleidd tæp 22 þúsund tonn í einum ljósbogaofni. Þegar fram líða stundir er gert ráð fyrir að fjölga ofnum í fjóra og þá mun verksmiðjan framleiða 86 þúsund tonn á ári. Kostnaðurinn við fyrsta áfanga verksmiðjunnar er um 12 milljarðar króna en fullbyggð mun hún kosta 36 milljarða. United Silicon hefur þegar gert raforkusamning við Landsvirkjun vegna fyrsta áfangans. Kveður hann um á kaup af 35 Mw og hefur öllum fyrirvörum samningsins verið aflétt.

Thorsil

Það verkefni sem styst er komið er bygging kísilmálmverksmiðju Thorsil í Helguvík. Fyrir tæpum tveimur vikum gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi, sem heimilar Thorsil að reka verksmiðjuna. Hákon Björnsson, hjá Thorsil, segir að Thorsil muni hefja framkvæmdir næsta vor og stefnt sé að því að opna verksmiðjuna árið 2018.

Í fyrri áfanga verða tveir ofnar í verksmiðjunni og framleiðslan 54 þúsund tonn. Orkuþörfin  er 87 Mw og segir Hákon að ekki sé búið að klára orkusaminga en að viðræður við Landsvirkjun séu á lokametrunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.