Skiptum á þrotabúi Borgarhorns ehf. er lokið án þess að nokkuð fengist upp í lýstar kröfur í búið en þær námu, auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir gjaldþrotaúrskurð, námu 208 milljónum króna. Borgarhorn var eitt sinn rekstraraðili Jamie‘s Italian á Íslandi.

Í tilkynningu þessa efnis í Lögbirtingablaðinu eru kröfur ekki sundurliðaðar frekar. Skiptum lauk í gær en fyrir um tveimur vikum hafnaði Landsréttur því að Borgarhorn fengi afhent tæki, innanstokksmuni, áhöld og hugbúnað sem þrotabúið taldi sig eiga. Rekstri Jamie‘s Italian hefur verið haldið áfram af öðrum aðilum.

Samkvæmt ársreikningi Borgarhorns átti félagið rekstrarfjármuni, það er innréttingar, hugbúnað, áhöld og tæki í húsnæðinu, sem metnir voru á rúmlega 125 milljónir króna. Stærstan hluta þess er enn að finna í Pósthússtræti 11, en það má ráða af fyrrgreindum úrskurði Landsréttar, sem er í eigu Keahótela. Félagið lýsti kröfu í þrotabú Borgarhorns en hún var ekki tekin til greina þar sem hún barst eftir að kröfulýsingarfresti lauk.

Agnar Fjeldsted keypti Jamie's Italian Iceland í apríl en meðeigendur eru Tómas Kristjánsson, Sigrún Guðmundsdóttir, Ingi Þór Ingólfsson og Sigtryggur Gunnarsson.