*

mánudagur, 20. september 2021
Innlent 21. apríl 2021 18:32

209 milljóna tap hjá RÚV

Afkoma Ríkisútvarpsins versnaði um 216 milljónir króna milli ára. Ársverkum fækkaði úr 271 í 266.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar RÚV í Efstaleitinu
Aðsend mynd

Tap var á rekstri Ríkisútvarpsins, RÚV, að fjárhæð 209 milljónir króna eftir skatta árið 2020, samanborið við 6,6 milljóna króna afgang árið áður. Afkoman versnaði því um 216 milljónir milli ára. Auglýsingatekjur stofnunarinnar lækkuðu um tæplega 200 milljónir króna milli ára. Þetta kemur fram í ársskýrslu RÚV.  

Tekjur RÚV námu 6,8 milljörðum króna á síðasta ári. RÚV áætlar að tekjutap vegna faraldursins hafi verið tæplega 300 milljónir króna. Rekstrargjöld hækkuðu um 174 milljónir króna milli ára og námu um 6,8 milljörðum. Þar af námu laun og launatengd gjöld rúmum þremur milljörðum króna. Fjöldi ársverka var 266 á síðasta ári, samanborið við 271 árið 2019. 

„Í áætlun ársins 2021 er gert ráð fyrir meiri tekjusamdrætti, bæði vegna minni auglýsingatekna og minni þjónustutekna og því nauðsynlegt að sýna áfram aðhald í rekstri til að markmið um hallalausan rekstur á árinu náist,“ segir í skýrslu stjórnar.

Heildareignir RÚV námu 8.340 milljónum króna í árslok 2020. Skuldir RÚV jukust um 412 milljónir króna og námu 4,4 milljörðum. Eigið fé var 1.923 milljónir og eiginfjárhlutfall var 23,1%, um þremur prósentustigum lægra en árið áður. Hrein fjármagnsgjöld voru neikvæð um 353 milljónir króna. 

Í skýrslu stjórnar segir að skuldir hafa verið miklar um árabil, m.a. vegna uppgjörs á eldri lífeyrisskuldbindingum. Hins vegar hafi tekist að lækka vaxtaberandi skuldir „umtalsvert“ með sölu á byggingarrétti. „Þessi aðgerð ásamt því að samið var um skilmálabreytingu skuldabréfs vegna eldri lífeyrisskuldbindinga hefur orðið til þess að félagið hefur getað staðið undir greiðslu afborgana og vaxta af lánum.“ 

Stjórn RÚV telur að félagið sé enn of skuldsett og mun halda áfram að leita varanlegra lausna varðandi skuldsetningu þess.

Ávarp Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra vegna ársskýrslunnar má sjá hér að neðan.

Stikkorð: RÚV Ríkisútvarpið