Hagnaður Áfengis og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á síðasta ári var 516 milljónir króna sem er 21% aukning frá árinu áður sem er að mestu leyti vegna hagstæðrar gengisþróunar á tóbaksinnflutningi. "ÁTVR getur unað vel við þessa afkomu einkum í ljósi þess að mikið uppbyggingarstarf var unnið á árinu, fræðsla og markaðssetning til viðskiptavina okkar aukin og vínbúðirnar þróaðar áfram. Magnaukning í alkóhóllítrum var 5,45% en um 1,8% samdráttur á magnsölu tóbaks segir í ársreikningi ÁTVR.

Rekstrartekjur ársins voru samtals 15.399 milljónir kr. Tekjur af sölu áfengis jukust um tæplega 4% á milli ára og nam sala ársins 9.714 m.kr. Tekjur af sölu tóbaks jukust um 1% á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 558 m.kr. eða 3,6% samanborið við 3,2% á fyrra ári. Arðsemi eigin fjár var á árinu 21,3% miðað við 20% árið 2003. Rekstrargjöld námu 14.926 m.kr. þar af nam vörunotkun 13.467 m.kr. Rekstrarkostnaður án vörunotkunar er 9,5% af veltu.

Sjá nánar frétt í Viðskiptablaðinu í dag.