*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 30. október 2019 17:10

2,1 milljarða hagnaður á 3. ársfjórðungi

Hagnaður Íslandsbanka á þriðja ársfjórðungi var 2,1 milljarðar króna. 6,8 milljarða hagnaður á fyrstu 9 mánuðum ársins.

Ritstjórn
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Íslandsbanka eftir skatta á þriðja ársfjórðungi var 2,1 milljarðar króna og stóð nánast í stað frá sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli nam 4,7%, en var 4,9% á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri bankans.

Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 3,0 milljörðum króna og jókst lítillega frá sama tímabili í fyrra þegar hann nam 2,9 milljörðum króna. Hreinar vaxtatekjur voru 8,4 milljarðar króna og var vaxtamunur 2,7%. Hreinar þóknanatekjur voru 3,1 milljarðar króna.

6,8 milljarða hagnaður á fyrstu 9 mánuðum ársins

Hagnaður bankans eftir skatta á fyrstu 9 mánuðum ársins nam 6,8 milljörðum króna, samanborið við 9,2 milljarða á sama tímabili í fyrra. Þá var arðsemi eigin fjár 5,1% á ársgrundvelli, miðað við 7,1% á fyrstu 9 mánuðum síðasta árs.

Hagnaður af reglulegri starfsemi var 8,7 milljarðar króna, samanborið við 9,9 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Hreinar vaxtatekjur voru 25,2 milljarðar króna og jókst um 6,5% milli ára. Hreinar þóknanatekjur voru 9,7 milljarðar króna, og jókst um 11% miðað við fyrstu 9 mánuði ársins 2018. 

Virðisbreyting útlána var neikvæð um 2.078 milljónir króna á tímabilinu, samanborið við jákvæða virðisbreytingu um  1.881 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Stjórnunarkostnaður jókst um 3% milli ára og nam 20,8 milljörðum króna. Kostnaðarhlutfall samstæðu á tímabilinu var 61,3% samanborið við 65,6% á sama tímabili 2018, en kostnaðarhlutfall móðurfélags var 55,3% sem er við 55% langtímamarkmið bankans. 

Útlán til viðskiptavina jukust á tímabilinu og voru 909,2 milljarðar króna í lok september. Ný útlán á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 voru 162,7 milljarðar króna. Innlán frá viðskiptavinum voru 610,3 milljarðar króna í lok september sem er 5,4% aukning frá áramótum.

„Á fyrstu níu mánuðum ársins var góður vöxtur í þóknanatekjum (11%) og vaxtatekjum (6,5%) frá sama tímabili í fyrra auk þess sem lánabók bankans óx um 7,4%.  Neikvæðar virðisbreytingar, sem meðal annars má rekja til þess að nokkuð hefur hægt á efnahagslífinu, hafa þó vissulega dregið úr afkomunni og er arðsemi eigin fjár tímabilsins undir markmiðum bankans. 

Ánægjulegt er þó að kostnaðarhlutfall bankans hefur farið lækkandi á tímabilinu samanborið við sama tíma í fyrra. Sé eingöngu horft til móðurfélags bankans er hlutfallið nú rétt við 55% langtímamarkmið bankans en áfram verður unnið að því að auka hagkvæmni í rekstri.  Lausafjárstaða bankans er sem fyrr sterk og vel yfir kröfum eftirlitsaðila auk þess sem eiginfjárhlutfall er við langtímamarkmið bankans. 

Ánægjulegt er að nefna að á dögunum veittum við 30,5 milljónum króna í styrki til 9 verkefna úr Frumkvöðlasjóði bankans. Við val af styrkþegum var horft til verkefna sem stuðla að framgangi þeirra fjögurra heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem bankinn hefur ákveðið að starfa eftir í stefnu sinni.  Við höfum einsett okkur að vera jákvætt hreyfiafl í samfélaginu og munum áfram leggja okkur öll fram við að vera leiðandi í þeim efnum,“ er haft eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóri Íslandsbanka, í tilkynningunni.