Tekjuskattur einstaklinga verður lækkaður hraðar en áður var ráðgert og mun lækkun hans koma fram að fullu árið 2021. Ráðstöfunartekjur tekjulægstu hópanna munu aukast um rúmlega 120 þúsund krónur á ári við breytinguna. Lækkunin nemur um 21 milljarði króna eða um einum tíunda af heildartekjum ríkisins af skattinum.

Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, þegar hann kynnti fjárlagafrumvarp komandi árs. Kynningin fór fram árla í dag. Samhliða lækkuðum tekjuskatti mun tryggingagjaldið verða lækkað enn frekar eða um 0,5 prósentustig. Það var 7,69% árið 2013 en verður 6,35% eftir breytinguna.

Þá verður lagt í ýmsar fjárfestingar sem setið hafa á hakanum. Framlög til fjárfestinga verða ríflega 78 milljarðar króna og hafa aukist um helming frá árinu 2020. Meðal annars verður fjárfest fyrir 28 milljarða í samgöngum, 8,5 milljarðar renna í uppbyggingu nýs Landspítala, keyptar verða nýjar þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna og fé verður lagt í byggingu nýs hafrannsóknarskips.

„Svigrúm ríkissjóðs til þess að bregðast við hægari gangi í hagþróuninni má fyrst og fremst þakka agaðri fjármálastjórn undangenginna ára. Jákvæð afkoma, stöðugleikaframlög vegna losunar fjármagnshafta og aðrar óreglulegar tekjur á borð við arðgreiðslur hafa nýst til að lækka skuldir ríkisins verulega, sem á næsta ári er gert ráð fyrir að fari í 22%,“ segir í kynningu með fjárlagafrumvarpinu.

„Það er ánægjulegt að sjá hvernig vinnumarkaður, opinber fjármál og framkvæmd peningastefnunnar eru að leggjast á sömu sveit til að ná þeim árangri sem við hljótum að stefna að, aukinn efnahagslegir stöðugleiki með lækkandi vöxtum og hóflegri nafnbreytingum á kaupi, sem engu að síður tryggi vöxt kaupmáttar. Þar er auðvitað lykilatriði að verðbólgunni sé haldið í skefjum,“ sagði Bjarni Benediktsson í morgun.