© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Hámarksverð í útboði Seðlabankans, þar sem bankinn býðst til að kaupa evrur fyrir ríkisverðbréf og er liður í losun hafta, er 210 krónur fyrir evru. Tilboð yfir hámarksverði teljast ekki gild tilboð í útboðinu.

Útboðið var kynnt fyrir helgi og er síðari leggur í þessum fyrstu útboðum bankans. Í fyrra skrefi keypti bankinn aflandskrónur fyrir gjaldeyri, og notaði til þess gjaldeyrisforða Seðlabankans. Markmið síðara skrefsins er að endurheimta þann gjaldeyri sem Seðlabanki Íslands nýtti til kaupa á aflandskrónum. Það eru helst innlendir lífeyrissjóðir sem taldir eru líklegir þátttakendur í útboðinu, en þátttakendum býðst til þess að kaupa ríkisverðbréf fyrir erlendan gjaldeyri.

Miðað við að hámarksverð í útboði ríkisbréfanna er 210 krónur fyrir evru er ljóst að Seðlabankinn getur gert betur en að endurheimta þann gjaldeyri sem var notaður. Í fyrra útboði var tekið tilboðum fyrir tæplega 13,4 milljarða króna og var lágmarksverð 215 krónur fyrir evru. Meðalverð samþykktra tilboða var 218,9 krónur. Innlendum aðilum sem ætla sér að taka þátt í seinna útboðinu bjóðast því ekki jafn góð kjör og Seðlabankinn fékk krónurnar á, þar sem þeim er óheimilt að bjóða veikara gengi en 210 krónur fyrir evru.