Atvinnuleysi á öðrum ársfjórðungi var að meðaltali 8,7% sem gerir 16.200 manns án vinnu og í atvinnuleit. Fleiri karlar voru atvinnulausir en konur, eða 9,4% karla og 8% kvenna. Atvinnulausum fækkaði um 500 á milli annars ársfjórðungs 2009 og 2010.

Í nýjum tölum Hagstofunnar um vinnumarkaðinn á 2. ársfjórðungi sést að mest var atvinnuleysið meðal fólks á aldrinum 16-24, eða 21,3%. Þetta háa hlutfall skýrist að mestu af aukinni atvinnuþátttöku námsmanna yfir sumarmánuðina. Atvinnuleysi er þó öllu jafnan hæst meðal þessa aldurshóps.

VInnutími styttri en 2007

Í tölum Hagstofunnar má sjá að meðalfjöldi vinnustunda var 40,2 klukkustundir, 44,3 stundir hjá körlum en 35,5 hjá konum. Það er að jafnaði um 2 klukkustundum styttri vinnutími á viku heldur en árið 2007.

Atvinnuþátttaka hefur aukist töluvert frá 2. ársfjórðungi 2009. Hún er í dag 83,3% en var 81,9% fyrir ári síðan. Atvinnuþátttaka telur bæði þá sem eru starfandi og atvinnulausir.