Virðisrýrnun viðskiptavildar Icelandair vegna kórónufaraldursins nam 14,8 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi og tap vegna eldsneytisvarna 6,6 milljörðum. Tekjur flugfélagsins drógust saman um 16% og námu 26,9 milljörðum króna. Þetta kemur fram í bráðabirgðauppgjöri félagsins.

Tölurnar eru í tilkynningu sagðar gefa til kynna að 26,8 milljarða rekstrartap (EBIT) hafi verið á fjórðungnum. Lausafjárstaða félagsins er þó enn yfir 29 milljarða króna lágmarksviðmiði, en að óbreyttu stefnir í að staðan fari undir það viðmið á næstu vikum.

Gert er ráð fyrir að þær uppsagnir og aðrar aðgerðir til að bæta lausafjárstöðu félagsins muni minnka útflæði fjármagns um 1,7 milljarða á næstu þremur mánuðum.

Þá er þess getið að vinna standi yfir við að styrkja lausa- og eiginfjárstöðu félagsins með hlutafjárútboði , samningum við aðra hagaðila á borð við birgja og leigusala. Loks er minnst á hugsanlega aðkomu stjórnvalda, sem tilkynnt var um í gær, en hún er meðal annars háð árangri fjárhagslegrar endurskipulagningar.