Rúmar tvær milljónir króna söfnuðust á uppboði til styrktar Ingólfi Júlíussyni ljósmyndara og fjölskyldu hans. Júlíus greindist með bráðahvítblæði í október og fer í mergskipti í Svíþjóð eftir áramótin. Uppboðið var haldið um þarsíðustu helgi á Hótel Borg og gáfu allir sem að því komu bæði muni sem voru boðnir upp og vinnu sína.

Fram kemur í tilkynningu frá þeim sem stóðu að uppboðinu að fjölskylda Júlíusar fái fjárhæðina afhenta í þrennu lagi; 844.500 krónur nú þegar, 1.098.069 krónur í byrjun janúar en þær fjárhæðir sem greiddar voru með kreditkortum á uppboðinu eftir því sem þær skila sér. Af heildarfjárhæðinni eru 201.000 krónur frá Myndstefi.

Allar ljósmyndir sem boðnar voru upp voru gefnar af viðkomandi ljósmyndurum, sem og listaverk eftir listamanninn Tolla og Canon ljósmyndavél frá Nýherja. Beco gaf Holgu myndavél sem allir þekktustu fréttaljósmyndarar landsins tóku myndir á og árituðu.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá var dýrasta myndin sem seldist á uppboðinu af þeim Bjarna Brynjólfssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, og Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG, etja kappi í sjómanni. Myndin var tekin sérstaklega fyrir uppboðið. Ragnar Gunnarsson hjá auglýsingastofunni Brandenburg keypti myndina ásamt annarri ljósmynd.

Steingrímur Sigfússon etur kappi við Bjarna Benediktsson.
Steingrímur Sigfússon etur kappi við Bjarna Benediktsson.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)