Við lokun markaða þann 23. maí síðastliðinn stóð gengi hlutabréfa Haga í 55,2 krónum á hlut og nam heildarmarkaðsverðmæti félagsins 63,3 milljörðum króna. Eftir lokun markaða í dag, um tveimur og hálfum mánuði frá því að Costco opnaði verslun sína í Kauptúni stendur gengi hlutabréfa Haga í 36,5 krónum á hlut og hefur lækkað um 33,8% á tímabilinu.

Heildarmarkaðsverðmæti félagsins stendur því í rétt rúmlega 42 milljörðum króna og hefur rúmlega 21,5 milljarður þurrkast út af markaðsverðmæti félagsins á tímabilinu. Það er því auðvelt að átta sig á því að Gildi-lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. A-deild og Lífeyrissjóður Verslunarmanna sem er þrír stærstu hluthafar Haga, hafa tapað milljörðum króna frá opnun Costco.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um sendu Hagar frá sér afkomuviðvörun annan mánuðinn í röð rétt helgi, en þar kom fram að EBITDA félagsins verði um fimmtungi lægri fyrir annan ársfjórðung ársins heldur en var fyrir ári síðan. Var þetta önnur afkomuviðvörunin sem fyrirtækið sendir frá sér í sumar en fyrirtækið sendi einnig frá sér viðvörun fyrir júnímánuð . Í júlí síðastliðnum hafnaði samkeppniseftirlitið einnig fyrirhuguðum samruna Haga og Lyfju.