Alls hafa 216 einstaklingar stöðu réttarstöðu sakbornings í rannsóknum hjá embætti sérstaks saksóknara. Heildarfjöldi sakborninga og vitna í öllum málum er 471. Sumir einstaklingar hafa komið oftar en einu sinni í yfirheyrslu og hafa farið fram alls 600 yfirheyrslur.

Þetta kom fram í svari Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra við fyrirspurn Sigmundar Ernis Rúnarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Fyrirspurn Sigmundar Ernis var eftirfarandi:

1.      Hver er staðan á rannsókn embættis sérstaks saksóknara á grun um refsiverða háttsemi í tengslum við bankahrunið? Hve margir hafa nú stöðu grunaðra? Hve margir hafa verið yfirheyrðir?
2.      Er hætt við að mál einhverja manna, sem tengjast rannsókninni, fyrnist áður en rannsókn lýkur? Hvenær er þess að vænta að rannsókninni ljúki?

Svör ráðherra byggja á upplýsingum frá embætti sérstaks saksóknara. Kom fram að starfsmenn embættisins verða um næstu mánaðarmót alls 78. Mál sem hafa verið til rannsóknar eru alls 111 og hafa fjórir verið ákærðir. Rannsókn hefur verið hætt eða málum vísað frá í 28 tilvikum. Alls eru 80 miál til meðferðar og segir í svarinu að þau séu á mismunandi stigum, sum á frumstigi og önnur lengra komin.

Ögmundur sagði að reynt sé að starfa á þann hátt að mál fyrnist ekki. Hann treysti sér ekki til að svara hvenær þess sé að vænta að rannsóknum ljúki.