Ný þriggja ára áætlun bæjarstjórnar Hveragerðis gerir ráð fyrir að tekjur bæjarins fari úr rúmum 778 milljónum á árinu 2005 í tæpar 920 milljónir á árinu 2008. Á sama tímabili fara rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsliða úr 675 milljónum króna í 759 milljónir. Ekki er gert ráð fyrir nýrri lántöku á tímabilinu heldur er stefnt að því að skuldir lækki úr 760 milljónum króna í 580 milljónir, eða um 180 milljónir króna.

Bæjarstjórn samþykkti áætlunina á fundi sínum þann 14. apríl síðastliðinn og er um að ræða þriggja ára fjárhagsáætlun bæjarfélagsins fyrir árin 2006-2008. Henni er ætlað að myndar ramma utan um rekstur og framkvæmdir á vegum bæjarins á tímabilinu og innan hans verða síðan sniðnar fjárhagsáætlanir frá ári til árs út sama tímabil.

Ekki er gert ráð fyrir auknum skuldbindingum á sviði rekstrar frá því sem nú er. Hinsvegar mun aukning í tekjum bæta rekstrarafkomu og sjóðstreymi bæjarsjóðs mikið frá því sem nú er ef áætlunin gengur eftir.

Framkvæmt verður á vegum bæjarfélagsins fyrir 217 milljónir króna í áætluninni. Meðal verkefna sem ráðist verður í á tímabilinu eru endurbætur á gömlum götum fyrir 42 milljónir króna og á sundlaug fyrir 20 milljónir. Þá á að ljúka við síðasta áfanga grunnskólalóðar sumarið 2006 ásamt því að gert er ráð fyrir viðbyggingum við leikskólann Óskaland og Grunnskólann á seinni hluta tímabilsins. Loks gerir áætlunin ráð fyrir fjármagni til hönnunar á knattspyrnuvelli í fullri stærð sem unnt yrði að nota á öllum árstímum.