Reiðufé hefur verið í deiglunni á síðustu misserum. Tengist umræðan meðal annars hugmyndum sem komu upp í skýrslu fjármálaráðherra þar sem sú hugmynd var viðruð að taka 10.000 og 5.000 krónu seðla úr umferð á Íslandi. Sitt sýndist hverjum um hugmyndina, en í pistli sem birtist á vefsíðu Íslandsbanka rekur Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri Íslandsbanka, stöðu reiðufjár á Íslandi - en þar segir meðal annars að 2,2% af landsframleiðslu Íslands er í reiðufé.

Björn Berg vísar þar í Fjármálainnviði Seðlabanka Íslands þar sem fram kemur að notkun reiðufjár og annarra greiðsluleiða en greiðslukorta hafi aukist úr 9% og upp í 29% á milli áranna 2011 til 2016. Er þar átt við alla liði í einkaneyslu heimila að frádreginni húsaleigu, menntun, fjármálaþjónustu, rafmagni og hita, símaþjónustu, tryggingum og kaupum á ökutækjum.

Ef litið er á reiðufé í umferð sem hlutfall af vergri landsframleiðslu Íslands eru Norðurlöndin, þar með talið Ísland, í neðri hluta. Þrátt fyrir að hlutfallið hafi hækkað nokkuð á Íslandi - úr 1% á árunum 1983 til 2007 upp í 2,2% í dag er það fimmfalt hærra á evrusvæðinu.

Ferðamenn og reiðufé

Ferðamenn sem sækja Ísland heim koma iðulega frá löndum þar sem að notkun reiðufjár er tiltölulega lítil. Þó hefur notkun ferðamanna á hraðbönkum aukist gríðarlega á síðustu árum. „Sennilega má rekja einhvern hluta aukningar í notkun reiðufjár til aukinnar ferðamennsku en þegar litið er til þeirra mynta sem notaðar eru vekur athygli hversu stórt hlutverk 10.000 kr. og 5.000 kr. seðlar leika. Nefnd fjármálaráðherra taldi þetta vitnisburð um skattsvik og að með því að taka þessa stærstu seðla úr umferð mætti hafa hemil á slíkri starfsemi,“ skrifar Björn Berg.

Að lokum kemur fram að 87% alls reiðufjár sé í formi 5.000 og 10.000 króna seðla. Björn Berg skrifar að lokum að tækninýjungar og aukin netverslun geta vel orðið til þess að framtíðin verði seðla- og klinklaus, en að miðað við þessar nýjustu tölur verði þó einhver bið í það.