Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A og B hluta, var jákvæð um 2.218 milljónir króna á fyrstu þremur fjórðungum ársins en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 2.098 milljónir króna. Árshlutareikningur borgarinnar var lagður fram í borgarráði í dag. Rekstrarniðurstaðan er því 120 mkr betri en gert var ráð fyrir þrátt fyrir að fjármagnsgjöld hafi verið 1.507 milljónum hærri en gert var ráð fyrir. Segir í tilkynningu að mestu máli skipti viðsnúningur í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur.

Rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar var neikvæð um 81 milljón króna en áætlanir gerðu ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 1.245 milljónir. Í tilkynningu frá borginni segir að hagstæðari niðurstöðu megi m.a. rekja til hærri skatttekna og hærri greiðslna frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Heildareignir samstæðunnar samkvæmt efnahagsreikningi námu í septemberlok samtals 465,3 milljörðum, heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 316,1 milljarður og eigið fé nam 149,2 milljörðum króna.