*

mánudagur, 19. apríl 2021
Innlent 2. mars 2021 19:22

2,1 milljarðs króna gjaldþrot Sátts

5,5 milljónir króna fengust upp í tæplega 2,1 milljarðs króna kröfu í þrotabú Sátts, sem var í eigu fyrrverandi forstjóra Milestone.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Lýstar almennar kröfur í þrotabú Sátts ehf. námu 2,07 milljörðum króna, en 5,5 milljónir króna fengust greiddar upp í kröfurnar, sem samsvarar 0,264 hundraðshlutum að því er fram kemur í Lögbirtingarblaðinu. Félagið var lýst gjaldþrota í október 2011 en skiptum lauk í febrúar og tóku skiptin því hátt í áratug.

Félagið var í eigu Guðmundar Ólasonar, fyrrverandi forstjóra Milestone. Guðmundur hefur sjálfur verið lýstur gjaldþrota og lauk skiptum í þrotabúi hans árið 2018 en þá námu kröfur í bú hans 12 milljörðum króna og voru 86 milljónir greiddar upp í veðkröfur.

Árið 2018 dæmdi Hæstiréttur Guðmund ásamt Karli og Steingrími Wernerssonum að greiða þrotabúi Milestone 118 milljónir króna vegna lánveitingar Milestone til Sátts árið 2007 líkt og RÚV greindi frá á sínum tíma. Lánið var nýtt til að greiða helming af kaupverði hlutabréfa í Askar Capital, sem var þá dótturfélag Milestone. Þegar dómurinn féll höfðu Karl og Steingrímur höfðu einnig verið lýstir gjaldþrota og því snéri málareksturinn að þrotabúum mannanna.

 

Stikkorð: Sáttur Milstone