Velta þeirra tíu útgerða sem fá úthlutað flestum þorskígildistonnum jókst á síðasta ári. Nam hún 164 milljörðum króna og jókst um átta milljarða milli ára. Samanlagður hagnaður dróst á móti saman um tæpa sex milljarða en þá lækkun má rekja til afkomu Samherja. Sé félagið tekið út fyrir sviga var hún á pari við fyrra ár.

Könnun Viðskiptablaðsins nær, sem fyrr segir, til þeirra tíu útgerða sem fengu úthlutað stærstum hluta aflahlutdeilda fiskveiðiárið 2019-20. Rétt er að geta þess að eitt félaganna, það er FISK-Seafood, gerir upp miðað við fiskveiðiárið. Kaup félagsins á um þriðjungshlut í Vinnslustöðinni hf. áttu sér því stað eftir reikningsskiladag ársreiknings félagsins.

Á liðnu ári var Samherja einnig skipt upp í tvö félög. Samherji Holding ehf. tók yfir erlenda starfsemi félagsins en starfsemi á Íslandi og í Færeyjum varð eftir í Samherja hf. Samanburðurinn tekur mið af breytingunni. Sé eingöngu litið á tekjuhlið síðasta árs var ýmislegt sem vann með útgerðarfélögunum. Magn landaðs afla jókst en þar voru að hluta eftirhreytur sjómannaverkfallsins 2017 á ferð. Verkfallið hafði í för með sér að ekki tókst að nýta aflaheimildir ársins til fulls og var því heimilt að færa hluta þeirra yfir á fiskveiðiárið 2017-18. Til viðbótar við það má nefna að aukning varð á úthlutuðum aflaheimildum milli ára.

Það spilaði einnig inn í að gengi krónunnar tók dýfu á lokaársþriðjungi síðasta árs en þetta var í fyrsta sinn frá árinu 2012 sem gengi gjaldmiðilsins lækkaði milli ára. Þessu til viðbótar þá hækkaði afurðaverð milli ára og munaði þar mestu um hækkun á verði á uppsjávarafla. Samkvæmt ársskýrslu SFS nam hækkunin að jafnaði um átta prósentum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .