Velta með hlutabréf í fyrirtækjum sem skráð eru í Kauphöll Íslands nam rúmum 2,2 milljörðum króna í dag. Langmest veltan var með bréf í fasteignafélaginu Reginn, en hún nam 1450 milljónum króna.

Þetta er óvenjulega mikil velta með bréf í félaginu. Engar skýringar hafa fengist á henni. Hugsanlegt er þó að einhver verðbréfafyrirtæki, sem haldi á eignarhlutum í fyrirtækinu í gegnum verðbréfasjóði, hafi verið að færa bréfin á milli sjóða. Viðskiptin voru gerð fyrir opnun markaða í morgun.

Einnig var mikil velta með bréf í Högum en hún nam 344 milljónum króna og hækkaði verð um 0,5%. Velta með bréf í Icelandair nam 179 milljónum og hækkaði verð um 0,79%.

Velta með óverðtryggð skuldabréf nam 2,3 milljörðum króna, mest var hún í flokknum RIKB 25, en velta með verðtryggð bréf nam 270 milljónum.