Rúmar 5,2 milljónir Bandaríkjamanna sóttu um atvinnuleysisbætur í nýliðinni viku. Samtals hafa því 22 milljónir manns sótt um bætur síðastliðnar fjórar vikur, sem jafngildir um 14% vinnumarkaðarins, en síðustu tvær vikur á undan voru umsóknirnar 6,6 milljónir hvora vikuna.

Óhætt er að segja að tölurnar séu með öllu fordæmalausar, en á þeirri hálfu öld sem haldið hefur verið utan um tölurnar hafa umsóknir aldrei áður farið yfir 3 milljónir á fjögurra vikna tímabili, og aldrei yfir 700 þúsund á einni viku.

Ástæðan eru uppsagnir og launalaus leyfi vegna útgöngubanna og lokana starfsemi fyrirtækja vegna kórónufaraldursins. Líkast til er fjöldi þeirra sem misst hafa lífsviðurværi sitt vegna faraldursins að miklu eða öllu leyti þó enn hærri, enda ekki allir í þeim aðstæðum sem eiga rétt á bótum. Á móti sæki þó margir um bætur vegna tímabundins launalauss leyfis, án þess að þeim hafi verið endanlega sagt upp.

Í frétt Financial Times um málið er haft eftir hagfræðingi ING bankans að þar sé því spáð að 15 milljón manns hafi misst vinnuna varanlega, sem jafngildi því að öll störf sem skapast hafi frá botni fjármálakreppunnar árið 2009 séu horfin á innan við mánuði.