Fyrri árshelmingur 2006 einkenndist af hækkun erlendu verðbréfaeignar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í ljósi gengislækkunar krónunnar en einnig vegna hækkandi hlutabréfaverðs í heiminum. Þessi þróun átti mestan þátt í að skila sjóðnum 10,4% hreinni raunávöxtun á ársgrundvelli á tímabilinu sem svarar til 22,1% nafnávöxtunar.

Í frétt félagsins kemur fram að ólíklegt verði að telja að fjármunatekjur erlendu verðbréfanna verði jafn miklar á síðari helmingi ársins og hinum fyrri. Eignir LV hækkuðu um 26 milljarða og námu 217 milljörðum í lok júní sl. samanborið við 191 milljarð í upphafi árs.

Sjóðfélögum fjölgaði um 5% á fyrstu 6 mánuðum ársins miðað við sama tímabil á fyrra ári og greiddu að meðaltali rúmlega 31 þúsund sjóðfélagar iðgjald til sjóðsins.

Iðgjaldagreiðslur námu 5,7 milljörðum á fyrstu 6 mánuðum ársins sem er hækkun um 18% miðað við sama tímabil á fyrra ári. Innborganir í séreignardeild námu 341 milljón á fyrstu 6 mánuðum ársins samanborið við 252 milljónir á sama tímabili 2005 sem er liðlega 35% hækkun.
Eignir í séreignardeild hækkuðu um 19% á fyrri árshelmingi eða úr 4,1 milljarði í 4,9 milljarða.

Lífeyrisgreiðslur námu 1,6 milljarði á fyrri árshelmingi og hefur lífeyrisþegum fjölgað um 4% frá miðju síðasta ári og heildarfjárhæð lífeyris hækkað um 14% miðað við sama tímabil á fyrra ári.

Lánveitingar til sjóðfélaga námu 3,4 milljörðum á fyrstu 6 mánuðum ársins en 4,9 milljörðum á sama tímabili 2005 sem er 32% lækkun milli ára.