Tuttugu og tveir virkjanakostir eru skráðir í orkunýtingarflokk samkvæmt tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra kynntu tillöguna á blaðamannafundi í Öskju í morgun.

Í orkunýtingarflokki eru skráðir sex virkjanakostir á svonefndu vatnasviði. Það eru Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Vestfjörðum, Blönduveita í Blöndu á Norðvesturlandi, Skokkölduvirkjun í Köldukvísl á Suðurlandi, Hvammsvirkjun í Þjórsá á Suðurlandi, Holtavirkjun í Þjórsá á Suðurlandi og Urriðafossvirkjun í Þjórsá á Suðurlandi.

Sextán virkjanakostir eru skráðir undir háhitasvæði. Þar af eru tveir á Reykjanesi, tveir á Krýsuvíkursvæðinu, einn á Svartengissvæði, þrír á Hengilssvæðinu, tveir á Hágöngusvæði, tveir á Þeistareykjum, þrír á Kröflusvæðinu við Mývatnssveit og einn í Bjarnarflagi, sem er við Mývatnssveit.

Í verndunarflokki eru skráð tuttugu svæði og virkjunarkostir. Þar af eru tveir í Jökulsá á Fjöllum, Arnardalsvirkjun og Helmingsvirkjun. Síðan eru níu á Suðurlandi, Djúpvirkjun, Hólmsvirkjun, Markarfljótsvirkjun A, Markarfljótsvirkjun B, Tungnárlón, Bjallavirkjun, Norðlingaölduveita, Gýgjarfossvirkjun og Bláfellsvirkjun. Jarðhitasvæði í verndarflokki eru meðal annars þrír kostir á Reykjanesskaga, Brennisteinsfjöll, Bitra og Grændalur. Síðan eru fimm kostir á Suðurlandi, Geysir, Hverabotn, Neðri-Hveradalir, Kisubotnar og Þverfell. Á Norðausturlandi er eitt svæði í verndarflokki, Gjástykki.

Aðrir virkjanakostir, m.a. í Skjálfandafljóti og Hólmsá, eru í svonefndum biðflokki. Í honum eru virkjanakostir þar sem ekki hafa farið fram nægilega miklar rannsóknir.