Grunnskólar í Reykjanesbæ hafa nýverið staðið fyrir umfangsmikilli spjaldtölvuvæðingu en keyptar hafa verið um 220 Ipad spjaldtölvur fyrir bæði kennara og nemendur til afnota bæði í kennslustofum og heima fyrir. Að sögn Gylfa Jóns Gylfasonar, fræðslustjóra Reykjanesbæjar, hófst prufukeyrsla á verkefninu í fyrra en farið var á fullt með verkefnið á þessu ári.

„Hver og einn nemandi í einum árgangi fær spjaldtölvu til afnota bæði í skólanum og heima fyrir auk þess sem nú þegar eru tveir af hverjum þremur grunnskólakennurum komnir með Ipad sem þeir nýta við störf sín,“ segir Gylfi. Kostnaðurinn við allt verkefnið er í kringum 25 milljónir að sögn Gylfa en hann tekur fram að á móti þeim kostnaði komi umtalsverður sparnaður þar sem minni þörf er á ljósritun auk þess sem öll námsgögn fást rafrænt í gegnum spjaldtölvurnar.