Þann 1. júní síðastliðinn gerði Brim hf. hluthöfum í HB Granda hf. tilboð í hluti þeirra í félaginu líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá. Gildistími yfirtökutilboðsins rann út klukkan fimm í gær. Yfirtökutilboðið var gert í samræmi við X. og XI. kafla laga númer 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Alls tóku 222 hluthafar tilboðinu sem áttu samtals 54.880.508 hluti í HB Granda hf., eða sem nemur 3,01% hlutafjár í félaginu.

Eignarhlutur Brim hf. og tengdra aðila nam 34,1% fyrir tilboðið en mun nema 37,96% af heildarhlutafé HB Granda hf. við uppgjör viðskipta, þegar tekið hefur verið tillit til 0,85% eignarhlutar KG Fiskverkunar ehf.

Hluthafar sem tóku tilboðinu fá greitt með reiðufé og fer greiðsla fram eigi síðar en þann 6. júlí næstkomandi í samræmi við skilmála tilboðsins.