Hagnaður Sparisjóðs Hafnarfjarðar fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2004 nam 346 milljónum króna fyrir skatta samanborið við 108 milljónir króna á sama tímabili árið 2003. Þegar tekið hefur verið tillit til skatta var hagnaðurinn 276 milljónir króna og jókst um 225,1% miðað við sama tímabil 2003. Árshlutareikningurinn nú er gerður eftir sömu reikningsskilaaðferðum og á síðasta ári.

Vaxtatekjur námu 1.359 milljónum króna og jukust lítillega miðað við sama tímabil á árinu 2003. Vaxtagjöld námu 836 milljónum króna og jukust þau um 16,1%. Hreinar vaxtatekjur námu 524 milljónum króna en voru 612 milljónir króna á sama tímabili á árinu 2003 og lækka þær um 14,4% milli ára. Vaxtamunur hefur dregist saman og er nú 3,6% af heildarfjármagni.

Markaðsviðskipti gengu mjög vel enda markaðir hagstæðir á tímabilinu en gengishagnaður af innlendum og erlendum veltuverðbréfum nam 426 milljónum króna samanborið við 27 milljónir króna á sama tímabili 2003.

Rekstrargjöld námu 645 milljónum króna á tímabilinu samanborið við 593 milljónir króna á sama tímabili 2003, jukust þau um 18,8% milli tímabila. Hlutfall rekstrarkostnaðar af tekjum á tímabilinu var 52,9% og lækkaði úr 69,8% frá því á sama tíma á síðasta ári.

Laun og launatengd gjöld námu 330 milljónum króna á tímabilinu en voru 300 milljónir króna á sama tímabili 2003, jukust þau um 10,1% á milli tímabila. Annar rekstrarkostnaður nam 271 milljón króna á tímabilinu en var 248 milljónir króna á sama tímabili 2003 og jókst um 9,3% á milli tímabila.

Framlag í afskriftareikning útlána jókst á milli tímabila um 52,4%. Framlag fyrstu sex mánaða ársins nam 227 milljónum króna en á sama tímabili 2003 nam framlagið 149 milljónum króna. Afskriftareikningur útlána nam 477 milljónum króna 30. júní 2004 en það svarar til 2,1% af útlánum og veittum ábyrgðum en hlutfallið um síðustu áramót var 2,3%. Framlag í afskriftareikning útlána endurspeglar ekki endilega töpuð útlán, heldur er um að ræða fjárhæð sem lögð er til hliðar til að mæta hugsanlegum útlánatöpum.

Heildareignir Sparisjóðsins þann 30. júní 2004 námu 29.198 milljónum króna og höfðu aukist um 376 milljónir króna frá áramótum eða 1,3%.

Útlán Sparisjóðsins námu 22.371 milljónum króna á tímabilinu og jukust um 6,9% frá áramótum eftir samdrátt tveggja síðustu ára. Útlán sparisjóðsins voru um 76,6% af heildareignum Sparisjóðsins 30. júní 2004.

Markaðsverðbréf námu samtals 5.013 milljónum króna þann 30. júní 2004. Skuldabréf námu 3.894 milljónum króna og námu óskráð skuldabréf 216 milljónum króna. Hlutabréf námu 1.119 milljónum króna þar af námu óskráð hlutabréf 700 milljónum króna. Öll verðbréf Sparisjóðsins eru færð á markaðsvirði nema óskráð bréf en þau eru færð á kaupverði eða ætluðu markaðsverði hvort heldur sem lægra reynist.

Innlán Sparisjóðsins námu á tímabilinu 15.027 milljónum króna og jukust um 6,7% frá áramótum og námu þau 51,5% af niðurstöðu efnahagsreiknings Sparisjóðsins. Lántaka Sparisjóðsins dróst saman um 5,2% og nam 5.734 milljónum króna þann 30. júní 2004.

Eigið fé Sparisjóðs Hafnarfjarðar nam 3.036 milljónum króna þann 30. júní 2004. og hefur vaxið um 281 milljón króna frá áramótum eða um 10,2%. Á aðalfundi Sparisjóðsins í apríl sl. var samþykkt að hver stofnfjáraðili gæti tvöfaldað stofnfjárhlut sinn á árinu. Þann 30. júní 2004 höfðu 34 stofnfjáraðilar tekið þátt í aukningunni sem nemur 5,4 milljónum króna.

Samkvæmt CAD-reglum má eiginfjárhlutfall ekki vera lægra en 8%. Eiginfjárhlutfall Sparisjóðsins 30. júní 2004 var 11,1% en var 11,4 um síðustu áramót.