Farþegar Icelandair voru 227 þúsund talsins í janúar, 8% fleiri en í sama mánuði í fyrra, samkvæmt tilkynningu félagsins til kauphallarinnar , en sætanýting var svo til óbreytt í 71,9%. Framboðnum sætiskílómetrum fjölgaði um 10%, og seldum um 9%.

Farþegum Air Iceland Connect fækkaði hinsvegar um 12% milli ára, og voru tæplega 20 þúsund, en það skýrist fyrst og fremst af aflagningu flugs til Aberdeen og Belfast síðasta sumar, sem birtist í fjórðungssamdrætti framboðinna sætiskílómetra. Sætanýting var 57,1% og breyttist óverulega.

Leiguflug dróst saman um 12% milli ára, vegna færri verkefna að því er segir í tilkynningunni, en fraktflutningar voru óbreyttir.

Þá fjölgaði seldum gistinóttum hjá hótelum félagsins um 16%, og framboðnum um fjórðung, og herbergjanýting dróst því saman um 5%, úr 70% í 65%.