Hagnaður samstæðureiknings Milestone á fyrsta ársfjórðungi ársins 2007 nam 22,8 milljörðum króna fyrir skatta en 19,0 milljörðum króna að teknu tilliti til tekjuskatts. Kjarnafjárfestingar félagsins skiluðu hárri arðsemi og þróun á gjaldeyrismarkaði á tímabilinu var félaginu hagstæð, bæði hvað varðar rekstur og efnahag Milestone segir í frétt félagsins.


Í lok mars námu heildareignir félagsins 198,0 milljörðum króna og hækkuðu um 27,9 milljarða á tímabilinu, sem nemur 16,5% hækkun. Vöxtur heildareigna skýrist einkum af góðum hagnaði af kjarnafjárfestingum félagsins. Frá ársbyrjun 2005 hafa heildareignir félagsins um hækkað um 113,7 milljarða, úr 84,3 milljörðum í rúmlega 198,0 milljarða.

Í byrjun apríl seldi Milestone verulegan hluta af eignarhlut í sínum í Glitni banka hf og nam söluverð 54 milljörðum króna en sölugengi bréfanna var 27,82.


Í lok apríl keypti félagið ráðandi hlut í sænska fjármálafyrirtækinu Invik & Co. AB og gerði öðrum hluthöfum jafnframt yfirtökutilboð. Heildarvirði viðskiptanna er um 70 milljarðar íslenska króna en kaupin eru háð samþykki viðeigandi eftirlitsaðila. Invik & Co er fjármálafyrirtæki með víðtæka starfsemi á sænskum trygginga- og fjármálamarkaði, auk þess sem félagið rekur sérhæfða bankastarfsemi í Lúxemborg. Invik & Co er skráð í Kauphöllinni í Stokkhólmi og Milestone stefnir að því að afskrá félagið. Yfirtaka Milestone á Invik & Co er ein stærsta yfirtaka sem íslenskt félag hefur ráðist í. Af yfirtöku lokinni verða heildareignir Milestone um 341 milljarður króna og starfsmenn samstæðunnar verða um 900 talsins. Fjármögnun kaupanna var á hendi alþjóðlegu fjárfestingarbankanna Bear Stearns og Morgan Stanley sem endurspeglar það traust sem Milestone nýtur á fjármálamörkuðum.

Eigið fé félagsins nam í lok fyrsta ársfjórðungs 2007 um 63,7 milljörðum króna. Fjárhagslegur styrkur félagsins jókst enn frekar á tímabilinu og nam eiginfjárhlutfall samstæðunnar 32,2% samanborið við 25,7% í ársbyrjun. Eiginfjárhlutfall móðurfélagsins nemur á sama tíma 46,7%. Arðsemi eiginfjár á tímabilinu nam 268,3% á ársgrundvelli sem ber gæðum eignasafns félagsins vitni segir í frétt félagsins.

Afkoma í vátryggingastarfsemi dótturfélagsins Sjóvá hefur batnað umtalsvert. Hlutfall tjóna og rekstrarkostnaðar af iðgjöldum nam rúmlega 105% á fyrstu þrem mánuðum ársins en var á sama tíma í fyrra tæplega 116%.
Í desember 2006 var tilkynnt um stofnun nýs fjárfestingabanka, Askar Capital, sem er að meirihluta í eigu Milestone. Frá áramótum hefur verið unnið að öflun nauðsynlegra leyfa, ráðningu lykilstarfsmanna og uppsetningu á skrifstofum félagsins. Rekstur bankans gengur í samræmi við áætlanir félagsins.