Sala hefur farið mjög vel af stað í nýju fjöleignahúsi, sem nú er að rísa á Hlíðarendasvæðinu, innan hins nýja póstnúmers 102 Reykjavík. Alls hafa 23 íbúðir selst á þeim 10 dögum, sem liðnir eru frá því sala hófst eða um þriðjungur þeirra 69 íbúða sem komnar eru í sölu á vegum félagsins Hlíðarfótur undir nafninu 102Reykjavik.is. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Salan hefur farið fram úr okkar björtustu vonum en svo virðist sem það sé mikill og stöðugur áhugi á verkefninu. Við áttum ekki von á svona mikilli sölu á svo stuttum tíma sérstaklega í ljósi mikils umtals um tregðu á sölu á nýjum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Sýningaríbúð er ekki tilbúin, sem gerir þessar góðu viðtökur enn merkilegri, en hún verður klár í október. Við settum 69 íbúðir á sölu fyrir um 10 dögum. Helmingur þeirra eru 2ja herbergja íbúðir og alls er um að ræða 50 hagkvæmar íbúðir af minni gerðinni,“ segir Helen Neely, verkefnisstjóri í stýriteymi 102 Reykjavík.

Alls verða byggðar 191 íbúðir í fjöleignahúsinu. Af þeim eru ríflega 120 íbúðir minni en 90 fermetrar. Helen segir  að íbúðirnar séu fjölbreyttar frá tveggja til fimm herbergja og 50-220 fm að stærð. Einungis fjórar íbúðir eru stærri en 150 fermetra og er ein þeirra þegar seld. Hún segir að mikil vinna hafi verið lögð i skipulag íbúðanna val á innréttingum og efnisval almennt.

„Áður en við fórum af stað í þetta verkefni fyrir rúmu ári síðan þá gerðum við þarfagreiningu á markaðnum og lásum hann þannig að mikið af stórum og dýrum eignum á svæðum í kringum okkur væru í þróun eða farin af stað í byggingu. Við mátum það því þannig að meiri eftirspurn yrði eftir hagkvæmum, minni íbúðum á þessu svæði. Sú hefur verið raunin því við finnum fyrir mjög miklum áhuga. Það er greinilega skortur á þessari tegund af íbúðum í kringum miðbæinn,“ segir Helen.

Sigurður Lárus Hólm, framkvæmdastjóri Hlíðarfótar, sem er framkvæmdaaðili verkefnisins, segir að um svokallaða randbyggð sé að ræða. „Húsið er byggt utan um skjólgóðan inngarð og undir honum er tveggja hæða bílakjallari. Öllum íbúðum fylgir bílastæði og sumum fleiri en eitt. Engin atvinnustarfssemi er fyrirhuguð í húsinu og er þetta eina byggingin á svæðinu sem þannig er skipulögð. Hins vegar er gert ráð fyrir verslunum og þjónustu í öðrum húsum á svæðinu. Einn megin kosturinn við verkefnið okkar er staðsetningin þ.e. að Hlíðarendasvæðið er í göngufæri við miðbæinn og marga stærstu vinnustaði landsins sem og háskólana en samt ekki í skarkalanum. Auk þess er stutt í útvistarparadís í Öskjuhlíð og Nauthólsvík. Þá mun skv. skipulagi fyrirhuguð borgarlína fara um svæðið,“ segir hann.