Stór hluti landsmanna er ósáttur við þá fyrirætlun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, fyrrv. varaformanns Sjálfstæðisflokksins og ráðherra, að setjast aftur á þing núna í haust.

Þetta kemur fram í könnun MMR sem unnin var fyrir Viðskiptablaðið en sem kunnugt er vék Þorgerður Katrín af þingi sl. vor eftir að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis kom út. Hún sagði um leið af sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Í skýrslunni var fjallað um stórar lántökur eiginmanns hennar sem starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Kaupþing. Þá skapaðist í einnig í kjölfarið nokkur umræða um stöðu Þorgerðar Katrínar sem verið hafði ráðherra í ríkisstjórn í aðdraganda bankahrunsins.

Þorgerður Katrín hefur hins vegar áður lýst því yfir að hún hyggist taka aftur sæti á Alþingi þegar þingmannanefnd Alþingis skilar skýrslu sinni nú í september.

Tæplega 67% landsmanna eru hins vegar ósátt við þá ákvörðun samkvæmt könnun MMR. Tæplega 18% eru sátt við ákvörðun Þorgerðar Katrínar að snúa aftur en um 15% eru hvorki sátt né ósátt.

Af þeim sem taka afstöðu til stjórnmálaflokka virðast kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafa blendnar tilfinningar til endurkomu Þorgerðar Katrínar nú í haust og skiptast í raun til helminga í afstöðu sinni varðandi þá ákvörðun hennar að setjast aftur á þing. Það vekur sérstaka athygli þar sem Þorgerður Katrín er fyrrverandi varaformaður flokksins.

Lítill munur er á milli afstöðu kynja í könnuninni sem einnig vekur athygli en hún hefur fram að þessu notið mikils fylgis á meðal kvenna, hvort sem er innan eða utan Sjálfstæðisflokksins. Hið sama á við um afstöðu fólks eftir búsetu, menntun eða tekjum.