Með úrskurði héraðsdóms Vestfjarða uppkveðnum 17. janúar 2012 var verktakafyrirtækið KNH ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Sama dag var Grímur Sigurðsson lögmaður skipaður skiptastjóri í þrotabúinu. Skiptum á búinu var lokið þann 17. ágúst síðastliðinn. Þetta kemur fram í Lögbirtingarblaðinu.

Samtals námu lýstar kröfur í búið tæpum 2,3 milljörðum króna auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir úrskurðardag. Lýstar búskröfur námu rétt rúmum 227 milljónum króna en samþykktar búskröfur um 72 milljónum króna. Upp í þær greiddust um 11,9 milljónir króna. Lýstar veðkröfur námu kr. 361,7 milljónum.

Ekki kemur til úthlutunar úr búinu upp í forgangskröfur en Ábyrgðarsjóður launa greiddi samtals rétt rúmar 86 milljónir króna upp í lýstar forgangskröfur. Heildarfjárhæð almennra krafna sem lýst var í búið skv. kröfuskrá nam rétt rúmum 1,43 milljörðum króna, auk eftirstöðva veðkrafna að fjárhæð  343 milljónum króna. Ekki var tekin afstaða til almennra krafna þar sem ekkert kemur til úthlutunar upp í þær.

KNH ehf. hóf rekstur árið 1995 á vestfjörðum en stærsti verkkaupi KNH var Vegagerðin. Þá kom fyrirtækið að uppbyggingu Korputorgs og turnsins sem stendur á Smáratorgi.