Kínverska leikjafyrirtækið Dalian Zeus Entertainment Co. bauð 2,345 milljónir bandaríkjadollara eða um 308 milljónir íslenskra króna á góðgerðaruppboði á netinu til að snæða hádegisverð með bandaríska fjárfestinum Warren Buffet. Washington Post greinir frá þessu.

Uppboðið var til styrktar Glide Foundation sem styður við fátæka og heimilislausa í San Fransisco í Bandaríkjunum. Uppboðin hafa verið haldin árlega síðastliðin 15 ár en þeim hefur tekist að safna alls 17,9 milljörðum bandaríkjadollara á þeim tíma.

Buffet segist sjálfur hafa gaman af hádegisverðunum, sem endast yfirleitt í um þrjár klukkustundir. Þar ræðir hann við vinningshafa um allt milli himins og jarðar - fyrir utan það sem hann hyggst fjárfesta næst í.

„Þetta er áhugaverð reynsla fyrir mig hvert einasta ár,“ segir Buffet um hádegisverðina. „Ég hef hitt mikið af frábæru fólki í tengslum við þá. Ég hef eignast nýja vini, ráðið manneskju til starfa og fengið margar góðar steikur, þannig að ég get ekki kvartað.“