Engar eignir fundust í þrotabúi hönnunarverslunar Vopnabúrsins við Hólmaslóð. Lýstar kröfur námu 23,2 milljónum króna. Ísraelski hönnuðurinn Sruli Recht stofnaði félagið Vopnabúið árið 2009 og fengu vörur fyrirtækisins góða dóma í erlendum tísku- og hönnunartímaritum víða um heim. Bandaríska tímaritið Wallpaper sagði sem dæmi í fyrra Vopnabúið á meðal tíu athyglisverðustu verslunum heims árið 2010. Verslunin var úrskurðuð gjaldþrota í júní á þessu ári og lauk skiptum þrotabúsins 29. nóvember síðastliðinn, að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag.

Neikvætt eigið fé

Vopnabúrið var stofnað árið 2009 og skilaði síðast ársreikningi fyrir uppgjörsárið 2011. Þar kemur fram að verslunin hafi tapað rétt tæpum 10 milljónum króna og var eigið fé fyrirtækisins neikvætt um 10,7 milljónir króna. Afkoma verslunarinnar bar ekki með sér mikið umfang. Þvert á móti var rúmlega 9,6 milljóna króna tap af reglulegri starfsemi fyrir skatta. Í uppgjörinu námu eignir 24 milljónum króna í lok árs 2011. Mestar eignir voru vörur til endursölu upp á rétt tæpar tíu milljónir króna og vélar, áhöld og tæki upp á 6,6 milljónir.

Á móti námu skuldir tæpum 35 milljónum króna.