*

laugardagur, 5. desember 2020
Innlent 20. nóvember 2020 07:12

23 milljóna sekt á sjötugsaldri

Fyrrverandi kennari hefur verið dæmdur í skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu sektar vegna skattsvika og peningaþvættis.

Jóhann Óli Eiðsson
vb.is

Kona á sjötugsaldri var í Héraðsdómi Reykjaness fyrir viku síðan dæmd í fimm mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, og til greiðslu tæplega 23 milljón króna sektar í ríkissjóð fyrir skattalgabrot og peningaþvætti. 300 daga fangelsi kemur til greiði konan ekki sektina innan fjögurra vikna.

Konunni var gefið að sök að hafa skilað röngum skattframtölum tekjuárin 2010-15 með því að hafa ekki gefið upp eignarhald sitt á félagi skráðu á Seychelles-eyjum. Þaðan bárust henni greiðslur fyrir 16,2 milljónir króna en auk þess hafði hún 6,8 milljón króna leigutekjur sem ekki voru taldar fram. Með því komst hún hjá 6,7 milljón króna tekjuskatti og útsvari og 1,3 milljón króna fjármagnstekjuskatti. Áður hafði Ríkisskattstjóri hækkað skattstofna konunnar og lagt á þá álagþ

Rannsókn á máli konunnar hófst eftir að Skattrannsóknarstjóri hafði keypt gögn með upplýsingum um eignarhald Íslendinga á félögum á lágskattasvæðum. Við rannsókn og fyrir dómi bar konan því við að um endurgreiðslu á láni hefði verið að ræða en umrætt félag stóð að kaupum á fasteignum meðal annars í Slóvakíu, Svíþjóð, Marokkó og Bretlandi. Auk konunnar áttu fjórir aðrir einstaklingar hlut í því.

„Við álitum þetta sparifé okkar vera framlag í þetta félag og það er þess vegna, og það er eiginlega bara mistök eða vankunnátta, að við erum ekki að leggja þetta fram eða gefa þetta upp, þetta er náttúrulega gert af endurskoðanda alltaf þessi framtöl okkar,” sagði konan, sem starfaði sem kennari, fyrir dómi. Hún og fyrrverandi eiginmaður hennar – sá er líka með skattamál til meðferðar – hefðu ákveðið að reyna að nýta fé sem þau áttu aukalega í þetta félag. Hvergi hefði verið gerð tilraun til að fela eitt né neitt.

„Og þegar þessir peningar fara að koma aftur inn á reikninginn, og þá erum við sem sagt skilin, og ég skipti þessu þá bara á milli okkur og við ræddum það þá að þetta væri endurgreiðsla á láninu, en kannski höfum við upprunalega talað um þetta sem hlutafé en við vorum þá farin að tala um þetta sem lánið,“ sagði konan fyrir dómi.

Í niðurstöðu dómsins var ekki fallist á það að um lán hefði verið að ræða enda væru engin gögn til sem styddu þá fullyrðingu. Enn fremur, ef þar hefði verið lán á ferð hefði borið að gera grein fyrir því á skattskýrslu sinni. Áríðandi hefði verið fyrir hana að gera grein fyrir téðum greiðslum til félagsins og frá því ef svo hefði verið í pottinn búinn.

„Fram kom hjá ákærðu fyrir dómi að starfsmenn Landsbankans hefðu komið þeim hjónum í samband við aðra eigendur [félagsins] og hefðu þetta verið fyrstu skref þeirra hjóna í slíkum fjárfestingum. Ákærða hefði ekki þekkt þetta fólk áður. Einstaklingar sem við slíkar aðstæður lána félagi svo sem því sem hér á í hlut umtalsverðar fjárhæðir, jafnvel drjúgan hluta af sparifé sínu, hafa ríka ástæðu til að gæta vel að skjalagerð vegna ráðstafana sinna og tryggja sér gögn sem fært geti sönnur á lánveitingu sína og eftir atvikum þá skilmála sem um hana gilda. Engin slík gögn liggja fyrir í málinu,“ segir í dóminum.

Undir rekstri málsins hafði konan farið fram á frávísun þess vegna sjónarmiða um bann við tvöfaldri refsingu eða tvöfaldri málsmeðferð. Því var hafnað með úrskurði. Að mati dómsins hafði hún með framgöngu sinni gert brotleg við lög.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að konan hefði aldrei komist í kast við lög áður og að heilsa hennar væri bágborin en ekki er langt síðan hún gekk í gegnum krabbameinsmeðferð. Auk refsingarinnar og sektarinnar var henni gert með dómi að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, alls 914 þúsund krónur.