Það er afar ólíklegt að dagsetningin 23. október eigi eftir að skipta einhverjum sköpum í Icesave-deilunni, að mati viðmælenda Viðskiptablaðsins, en þann dag rennur út frestur íslenska innstæðutryggingasjóðsins til að greiða innstæðueigendum sem eiga kröfur í bú gamla Landsbankans.

Frestur sjóðsins til að greiða út kröfur á hendur sjóðnum hefur verið framlengdur í þrígang um þrjá mánuði í senn. Ekki er hægt að framlengja hann oftar.

Sjóðurinn á um sautján og hálfan milljarð króna.

Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, segir að á meðan viðræður eigi sér enn stað milli Íslendinga, Breta og Hollendinga um lausn Icesave-deilunnar eigi hann ekki von á því að þeir síðarnefndu muni ganga á eftir kröfum sínum á hendur sjóðnum.

„Ég efast um að þessi dagsetning hafi mikla þýðingu og þeir láti reyna á hana á meðan menn ræðast við í þeirri trú að lausn sé í sjónmáli." Spurður hvort einhver lausn sé í sjónmáli svarar hann: „Já, ég held það. Við höfum fulla trú á því."

Gætu höfðað mál en afar ólíklegt að af því verði

Stefán Már Stefánsson, prófessor við Háskóla Íslands, segir að lagalega ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að Bretar og Hollendingar höfði mál á hendur sjóðnum, geti hann ekki staðið við skuldbindingar sínar. Það yrði að gera fyrir íslenskum dómstólum. Þeir gætu síðan beðið um ráðgefandi álit frá EFTA.

Sigurður Líndal lagaprófessor telur afskaplega ólíklegt að Bretar og Hollendingar fari þessa leið í ljósi þess hve sjóðurinn eigi lítið upp í kröfur þeirra. „Það borgar sig ekki að ganga að manni, fyrirtæki eða sjóði sem á ekki fyrir skuldbindingum sínum. Það er betra að finna aðra lausn," segir hann. Enda snúist Icesave-málið um ábyrgð íslenska ríkisins. Sjálfur efast hann um þá ábyrgð.

Greiðsluskylda íslenska innstæðutryggingasjóðsins skapaðis upphaflega í lok október í fyrra þegar Fjármálaeftirlitið gaf út að Landsbankinn væri ekki fær um að inna af hendi innstæður af Icesave-reikningum viðskiptavina bankans í Hollandi og Bretlandi.

Greiðsluskyldunni hefur síðan þá verið frestað þrisvar sinnum af viðskiptaráðherra, eins og fyrr sagði, og rennur lokafresturinn út 23. október. Greiði sjóðurinn, sem er sjálfseignarstofnun, ekki út til kröfuhafa á þeim tíma, í hlutfalli við eigur sínar, er hann í raun að brjóta lög.

Hann getur þó ekki orðið gjaldþrota samkvæmt laganna hljóðan. Í sautjándu grein laga um sjóðinn, frá 1999, segir að hann sé undanþeginn gjaldþrotalögum. „Sjóðurinn verður hvorki tekinn til gjaldþrotaskipta né er heimilt að gera aðför í eignum hans," segir í lögunum.

Nánar er fjallað um þetta mál í Viðskiptablaðinu í dag.