Sýningin Verk og vit var haldin um helgina, en alls tóku 90 sýnendur þátt og kynntu gestum vörur sínar og þjónstu. Alls mættu 23 þúsund gestir á sýninguna þetta árið. Þetta er töluvert fleiri gestir en mættu síðast þegar sýningin var haldin árið 2008, en þá mættu um 18 þúsund manns á sýninguna.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra opnaði sýninguna formlega á fimmtudaginn síðasta. Við opnunina tóku einnig til máls Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. Í ræðu borgarstjóra kom meðal annars fram að ómetanlegt samtal myndi eiga sér stað á Verk og vit. „Þar munu uppbyggingaraðilar, sveitarfélögin og aðrir þátttakendur í samtalinu bera sig saman, kynna verkefni sín og vörur og taka með því saman þátt í þeirri uppbyggingu sem framundan er,“ sagði Dagur.