Kostnaður við aðgerðarpakka stjórnvalda til að bregðast við efnahagsafleiðingum af útbreiðslu kórónuveirunnar er metinn á um 230 milljarða króna. Alls eiga aðgerðirnar að nema um 7,8% af landsframleiðslu.

Alls voru tíu aðgerðir kynntar á blaðamannafundi í dag :

  1. Greiða á bætur til þeirra sem verða tímabundið fyrir skertu starfshlutfalli. Það á að kosta ríkissjóð um 22 milljarða króna en tryggja störf þúsunda Íslendinga.
  2. Brúarlán til atvinnulífs. Ríkið mun veita ábyrgð helming nýrra brúarlána til fyrirtækja sem eiga í rekstrarvanda vegna faraldursins upp á að hámarki 35 milljarða króna. Viðskiptabankar eiga því að hámarki að geta lánað 70 milljarða króna vegna þessa. Lækka á bankaskatt fyrir þetta ár sem nema á um 11 milljörðum króna sem á að gera bönkunum mögulegt að styðja betur við atvinnulífið.
  3. Fyrirtæki sem sjá fram á þriðjungs samdrátt tekna milli ára fá að fresta skattgreiðslum fram til ársins 2021 og dreifa þeim yfir 9 mánuði á næsta ári. Þá mun fyrirframgreiðsla tekjuskatts frestast fram að álagningu í október. Þetta á að styrkja lausafjárstöðu íslenskra fyrirtækja um 75 milljarða króna.
  4. Ríkissjóður endurgreiðir laun einstaklinga í sóttkví.
  5. Greiddur verður út sérstakur barnabótaauki 1. júní 2020 með öllum börnum undir 18 ára aldri. Foreldrar með lægri meðaltekjur en 927 þúsund krónur á mánuði árið 2019 fá 40 þúsund krónur á hvert barn og aðrir fá 20 þúsund krónur með hverju barni.
  6. Heimild til úttektar séreignarsparnaðar.
  7. Aðgerðir til að styrkja ferðaþjónustuna. Allir íbúar á Íslandi fá stafrænt gjafabréf til að ferðast innanlands. Gistináttagjald verður fellt niður til ársloka 2021 og leggjast á í alþjóðlegt markaðsátak upp á 1,5 milljarða króna þegar ferðaþjónusta í heiminum tekur við sér á ný.
  8. Endurgreiðsla virðisaukaskatts til einstaklinga vegna vinnu við endurbætur, viðhald og nýbyggingar fasteigna hækkar úr 60% í 100%. Endurgreiðslan á einnig að ná til heimilisaðstoðar auk byggingaframkvæmda félagasamtaka til almannaheilla.
  9. Tollafgreiðslugjöld verða felld niður tímabundið til ársloka 2021. Gjalddögum aðflutningsgjalda árið 2020 er frestað um fjóra mánuði.
  10. Stjórnvöld munu flýta fjárfestingum. Viðbótarfjárfestingar upp á 20 milljarða króna eru ráðgerðar á þessu ári.

Hér má sjá kostnaðarmat stjórnvalda á aðgerðunum:

© Aðsend mynd (AÐSEND)