Samkvæmt árshlutareikningi Frjálsa fjárfestingarbankans hf. fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2005 nam hagnaður bankans 230 millj. kr. eftir skatta samanborið við 221 millj. kr. á sama tímbili á árinu 2004. Arðsemi eigin fjár var 14,2%.

Hreinar vaxtatekjur námu 285 millj. kr. samanborið við 422 millj. kr. á sama tímabili 2004. Vaxtamunur nam 2,4% samanborið við 4,3% á sama tímabili 2004. Lækkun vaxtamunar skýrist einkum af breyttri reikniskilaaðferð en upptaka IFRS hefur það í för með sér að tekjur vegna lántökugjalda að upphæð 102 millj. kr. eru ekki tekjufærðar á tímabilinu heldur færðar til skuldar sem fyrirfram innheimtar tekjur og verða tekjufærðar á líftíma viðkomandi útlána. Alls hafa tæplega 350 millj. kr. af tekjum vegna lántökugjalda frá árinu 2002 og fram til loka júní 2005, verið færðar til skuldar og verða tekjufærðar á næstu árum skv. líftíma viðkomandi útlána.

Einnig skýrist lækkun vaxtamunar á mikilli samkeppni á útlánamarkaði en vextir útlána hafa lækkað mikið frá því í lok júní 2004.

Þrátt fyrir lækkun á hreinum vaxtatekjum þá er óveruleg breyting á hreinum rekstrartekjum á milli tímabila. Skýrist það aðallega af 92 millj. kr. gengishagnaði vegna lánasamninga. Hreinar rekstrartekjur fyrstu sex mánuði ársins 2005 námu alls 497 millj. kr. samanborið við 494 millj. kr. á sama tímabili 2004.

Kostnaðarhlutfall Frjálsa var 35,5% og hækkaði úr 25% miðað við sama tímabil í fyrra. Bæði launakostnaður og annar rekstrarkostnaður hækka umtalsvert en hækkunina má rekja til aukinna umsvifa og samningsbundinna hækuna launa.

Niðurstaða efnahagsreiknings var 29.458 millj. kr. og hefur aukist um 67% frá árslokum 2004. Heildarútlán og kröfur á lánastofnanir námu 27.792 millj. kr. í lok júní 2005 og hækkuðu um 62% á tímabilinu. Af útlánum bankans eru 98% tryggð með fasteignaveði.

Framlag í afskriftareikning útlána nam 38 millj. kr. samanborið við 100 millj. kr. framlag á sama tímabili 2004. Ástæða lægra framlags er að lítið er um útlánatöp og hefur vanskilahlutfall lækkað mikið frá áramótum og nam einungis 0,4% af heildarútlánum í lok júní 2005.

Afskriftareikningur útlána 30.6.2005 nam 380 millj. kr. sem er 1,4% hlutfall af heildarútlánum. Þar af nam almennt framlag 213 millj. kr. og sérstakt framlag 167 millj. kr. Vegna upptöku IFRS reikniskila var afskriftareikningur útlána leiðréttur 1.1. 2005. Sú leiðrétting lækkar afskriftareikninginn í byrjun árs um 72 millj. kr.

Eigið fé í lok tímabilsins nam 3.583 millj. kr. og hefur hækkað um 7% frá árslokum 2004. Eigið fé var lækkað 1.1. 2005 um 89 millj. kr. vegna leiðréttinga í kjölfar breytingu á reikniskilaaðferðum yfir í IFRS.

Eiginfjárhlutfall (CAD) bankans í lok júní 2005 var 24,4%. Lágmarkshlutfall samkvæmt lögum er 8,0%.