*

mánudagur, 18. nóvember 2019
Innlent 11. febrúar 2016 15:10

23,6% fleiri ferðamenn

14.800 fleiri ferðamenn fóru frá landinu í janúar síðastliðnum en í janúar á síðasta ári.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Um 77.500 erlendir ferðamenn fóru frá landinu í janúar síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 14.800 fleiri en í janúar á síðasta ári. Aukningin nemur 23,6% milli ára. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ferðamálastofu. Ferðamönnum hefur fjölgað verulega í janúar á síðustu árum og hafa aldrei verið fleiri en í ár. Meira en fjórfalt fleiri ferðamenn komu í janúarmánuði 2016 en í janúar árið 2010. 

Í tilkynningunni segir að um 78% ferðamanna í janúar árið 2016 voru af tíu þjóðernum. Bretar voru fjölmennastir eða 35,5% af heildarfjölda en næstir komu Bandaríkjamenn (18,6%).

Þar á eftir fylgdu Kínverjar (4,3%), Þjóðverjar (4,2%), Frakkar (3,2%), Danir (2,7%), Norðmenn (2,5%), Japanir (2,3%), Svíar (2,2%) og Kanadamenn (2,0%).

Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum, Bandaríkjamönnum og Kínverjum mest milli ára en 5.835 fleiri Bretar komu í janúar í ár en í sama mánuði í fyrra, 5.051 fleiri Bandaríkjamenn og 1.173 fleiri Kínverjar. Þessar þrjár þjóðir báru uppi aukninguna í janúar milli ára eða 81,5% af heildaraukningu. Ferðamönnum fækkaði hins vegar frá nokkrum þjóðum, m.a. Svíþjóð, Danmörku, Frakklandi og Japan.