Skiptum Dagsólar ehf., fyrrverandi rekstraraðila Next á Íslandi, lauk með úthlutunargerð í febrúar. Tilkynning um skiptalokin var nýverið birt í Lögbirtingablaðinu. Heildarfjárhæð lýstra krafna nam rúmum 236 milljónum króna.

Í tilkynningunni segir að búskröfur hafi fengist að fullu greiddar og samþykktar forgangskröfur, sem námu rúmlega 32 milljónum króna, fengust greiddar að tveimur þriðju. Ekkert fékkst upp í almennar kröfur, veðkröfur eða eftirstæðar kröfur. Dagsól var tekið til skipta í nóvember 2017 og tóku skiptin því rúma fimmtán mánuði.

Ári eftir þrot Dagsólar færði Next sig um set í Kringlunni og ný og smærri verslun, gólfplássið dróst saman um tæpan helming, opnuð á 2. hæð við hlið H&M. Líkt og með aðrar fataverslanir hefur aukin vefverslun haft nokkuð neikvæð áhrif á reksturinn.

Verslunin Next er nú rekin af félaginu N 1982 ehf.