Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, situr í velferðarnefnd vegna húsnæðismálanna sem nú er verið að fjalla um í þinginu eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá .

Það er ekki hægt að ræða húsnæðismálin öðruvísi en að gera það í mjög víðu samhengi," segir Guðlaugur Þór. „Þessi frumvörp gera ekki neitt ef ekki er hugað að því sem snýr að byggingarreglugerðinni, opinberum kostnaði, lóðaframboði og svo mætti áfram telja. Þriðjungur af byggingarkostnaði er opinber kostnaður og lóðakostnaður og ef ekki er tekið á þeim þætti þá erum við að gera slæmt ástand enn verra.

Það er vitað að vegna tímapressu voru þessi frumvörp lögð fram án þess að búið væri að vinna alla undirbúningsvinnuna. Það þýðir að við þurfum að vinna hana í þinginu því það er enn mikið af upplýsingum sem liggja ekki fyrir. Þá er ég að vísa í kostnaðarhluta frumvarpanna, flækjustigið og hvaða áhrif þau hafa á einstaka hópa. Styrkja þessar breytingar til dæmis frekar leigusala en leigjendur og fleira mætti nefna. Þegar maður fer yfir umsagnirnar þá er augljóst að það þarf að fara miklu betur yfir þetta. Mikill munur er til dæmis á kostnaðarmati einstakra aðila."

Guðlaugur Þór segir að frá árinu 2008 hafi framlög til húsnæðismála numið 237 milljörðum króna. Tæpir 95 milljarðar hafi verið í vaxtabætur og sérstakar vaxtabætur, 77,8 milljarðar í íbúðalánasjóð og 54 milljarðar í niðurfærslur.

„Þegar meira en helmingur háskólanema telur sig ekki geta eignast íbúð á næstu fimm árum þá erum við augljóslega ekki að ná þeim árangri sem lagt var upp með. Þetta er skólabókardæmi um það er ekki nóg að ausa bara fjármagni í húsnæðismálin."

Ítarlegar er fjallað um breytingar á húsnæðismálum í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .